Tagplay í fyrsta sæti á Product Hunt
Íslenska varan Tagplay frá samnefndu fyrirtæki er um þessar mundir í fyrsta sæti á lista Product Hunt fyrir daginn í dag, 29. júlí, með tæplega 400 upvotes. Opnað var fyrir Tagplay í dag, og samhliða því var það kynnt á Product Hunt. „Product Hunt hefur verið að beina mikilli umferð á vefinn okkar, en við höfum ekki náð að skoða tölurnar almennilega,“ segir Sesselja Vilhjálmsdóttir, stofnandi og framkvæmdastjóri Tagplay.
Tagplay er veflausn sem gerir fyrirtækjum og einstaklingum kleift að uppfæra vefsíður sínar sjálkrafa með uppfærslum á samfélagsmiðlum. „Mikið er um lítið uppfærðar og úreltar vefsíður því vefumsjónarkerfi eru oft flókin. Með Tagplay er hægt að uppfæra heimasíðuna sína með því einu að uppfæra Facebook prófílinn,“ segir Sesselja.
Product Hunt er eitt stærsta og virkasta samfélag áhugasamra um nýjar vörur, en þar eru daglega kynnt til sögunnar margar vörur frá fyrirtækjum sem oftar en ekki eru sprotar. Einungis þeir sem hafa fengið boð (e. invite) geta sent inn nýjar vörur, en allir geta gefið vörum atkvæði. Oftar en ekki myndast líflegar umræður milli þeirra sem búa til vöruna (kallaðir Makers á Product Hunt) og áhugasamra.
Nokkrar íslenskar vörur hafa komist á lista hjá Product Hunt, og má þar meðal annars nefna Oz, QuizUp og Watchbox, en ekkert þeirra hefur náð jafn miklu flugi þar og Tagplay.
„Erlendir veffjölmiðlar hafa verið að fjalla um okkur, og við höfum tekið eftir mikilli umræðu á Twitter, m.a. frá Brasilíu, sem kemur skemmtilega á óvart.“ Hún segir viðbrögðin hingað til hafa verið góð, að fólk sé hrifið af útfærslunni. „Næstu skref eru að halda áfram kynningu og fylgja eftir tækifærum,“ segir Sesselja um hvað sé framundan. „Auglýsinga- og vefstofur hafa verið að spyrja um stærri pakka og white-label lausnir, og svo eru nokkur spennandi samstarfstækifæri sem við ætlum að fylgja eftir.“