Lokaði Nasdaq og opnaði #NordicMade

Salóme Guðmundsdóttir, framkvæmdastjóri Klak Innovit, lokaði Nasdaq kauphöllinni í New York með bjölluhringingu síðastliðinn þriðjudag. Bjölluhringingin markaði upphaf á notkun myllumerkisins #NordicMade en því er ætlað að sameina fréttir úr norrænu sprotasenunni á einn stað, á vefsíðuna nordicmade.org. Salóme hringdi bjöllunni fyrir hönd stórs hóps sem var kominn frá norrænum sprotasamfélaginu.

Ferðin var skipulögð af Slush sem bauð með sér fulltrúum sprotasenunnar í hverju landi, þar á meðal Klak Innovit. „Ferðin til New York var upphaflega hugmynd fréttamiðla sem sérhæfa sig í fréttum af norrænu sprotasenunni, en með fjárstuðningi Nordic Innovation var hægt að gera hana að veruleika,“ segir Salóme.

20693764378_9984fdbd72_o
Salóme, fyrir miðju, í Nasdaq kauphöllinni í New York.

Tilgangur ferðarinnar var tvíþættur samkvæmt Salóme. „Þetta er í fyrsta sinn sem við komum öll saman á einn stað með formlegum hætti, en ferðin til New York var liður í því að styrkja enn frekar samtarfið okkar á milli og vekja athygli á norrænu sprotasenunni á austurströnd Bandaríkjanna.“

Frá hverju norðurlandanna voru valin tvö sprotafyrirtæki sem fengu tækifæri til að kynna sig fyrir fjárfestum og fjölmiðlum í New York en frá Íslandi fóru Sesselja Vilhjálmsdóttir, stofnandi TagPlay og Diðrik Steinsson, meðstofnandi og framkvæmdastjóri Breakroom.

Fjárfestingar sjóða í norrænum sprotafyrirtækjum á fyrstu sex mánuðum ársins námu yfir einum milljarði dollara sem er met, en áætlað er að sú upphæð verði um 1,5 milljarðar dollarar í árslok 2015. Að sögn Salóme komu 25% af sprotafjárfestingum síðasta árs á Norðurlöndum frá Bandaríkjunum.

„Bjölluhringingin á Nasdaq var klárlega hápunkturinn, en á þessum tveimur dögum sem ferðin stóð yfir fengum jafnframt tækifæri til að kynnast sprotasenunni í New York, heimsækja höfuðstöðvar Google og hlýða á fjölda erinda á viðburðum vítt og breitt um New York,” segir Salóme að lokum.