Helgarlesturinn #2: WWDC útgáfan

WWDC, árleg ráðstefna Apple fyrir forritara, fer fram í næstu viku. Ráðstefnan hefst á kynningu sem fer fram á mánudaginn kl. 17 að íslenskum tíma  en á þeirri kynningu er venjulega það nýjasta frá Apple sem snýr að forriturum kynnt. Ný stýrikerfi eru yfirleitt þar á meðal en gert er ráð fyrir því að bæði iOS 9 og OS X 10.11 verði kynnt. Þetta er því kynning sem gæti haft áhrif á þau íslensku startup sem þróa vörur fyrir Apple-tæki. Norðurskautið hefur af því tilefni farið yfir og fundið bestu greinarnar sem spá fyrir um hvað verði kynnt á mánudaginn.

Mikil umfjöllun hefur verið um hvort að Apple kynni nýtt Apple TV, vegna þess að boðskortið á WWDC minnti á Apple TV, en flestir telja nú að svo verði ekki. Samkvæmt heimildum New York Times þá verður ekkert af því.

Flestir miðlar eru sammála um að Apple muni kynna nýja tónlistarþjónustu sem svipar til Spotify. The Verge heldur því fram að þjónustan verði líklega ekki með ókeypis þjónustuleið líkt og Spotify býður upp á. Orðrómar hafa verið um að það verði hins vegar eins til þriggja mánaða frí prufuáskrift.

9to5mac  er með frétt um að Apple muni líklega kynna þjónustu sem hefur hingað til verið kölluð „Proactive“ sem á að keppa við Google Now. 9to5mac fjallar einnig um að Apple muni skipta út letrinu í bæði iOS 9 og OS X 10.11 en Helvetica hefur verið mjög umdeild sem kerfisletur. Í staðinn kemur San Francisco letrið sem er nú notað í Apple Watch.

MacRumors fjallar ítarlega um hvað sé í vændum fyrir OS X 10.11, en nafnið fyrir þá útgáfu af stýrikerfinu hefur ekki lekið enn þá.

Fyrir iPad á, samkvæmt 9to5mac, að koma nýr valmöguleiki sem býður upp á marga notendur á eitt tæki – svipað og hefur lengi verið hægt á OS X til þessa. Einnig er líklegt að það verði boðið upp á að vera með tvö öpp í einu sem skipta skjáplássinu með sér.

Það eru því ekki miklar líkur á því að það verði nýr vélbúnaður kynntur í næstu viku, undantekning á því gæti verið nýr Mac Pro – en það er alls ekki víst.