Greiðsluappið Sway fær fjármögnun frá Investa

Félagið á bakvið greiðsluappið Sway, sem þeir gáfu út á iOS fyrir um þremur vikum gekk á svipuðum tíma frá samningum við fjárfestingafélagið Investa um fjármögnun á félaginu. Ekki fæst uppgefið hver upphæð fjárfestingarinnar frá Investa er. Fyrirtækið hafði áður fengið 20 milljónir frá ónefndum fjárfestum. Android útgáfan er væntanleg í ágúst.

Haraldur Þorkelsson. Mynd: investa.is
Haraldur Þorkelsson. Mynd: investa.is

Í kjölfar fjárfestingar frá Investa mun Haraldur Þorkelsson taka sæti í stjórn Sway fyrir hönd fjárfestanna. Haraldur var áður hjá OZ þar sem hann stýrði vöruþróun, og fór til Nokia þegar félagið var selt þangað. Félagið Investa er samkvæmt heimasíðu félagsins „fjárfestingafélag sem fjárfestir í íslenskum sprotafyrirtækjum sem eiga góða möguleika á að hasla sér völl erlendis.“ Ásamt Haraldi standa á bak við Investa þeir Jói Sigurðsson, fyrrverandi starfsmaður Google og stofnandi Crankwheel; Hjálmar Gíslason, sem stofnaði og nýlega seldi Datamarket og Hilmar Gunnarsson, sem var í OZ á sínum tíma og stofnaði nýlega og seldi félagið Modio.

Samkvæmt Arnari Jónssyni, framkvæmdastjóra Sway, er mikill fengur fyrir félagið að fá aðgang að reynslu fjárfestanna og gæðastimpilinn sem fylgir því að fá fjárfestingu frá Investa.

Hér má sjá fyrri umfjöllun Norðurskautsins um Sway.