30 stöðugildi í tíu fyrirtækjum

Athugasemd: Norðurskautið hafði gert ítrekaðar tilraunir til að fá svör frá Designing Reality, tölvupóstur, sms og símtal en ekki fengið svör. Því var tekin ákvörðun um að úrskurða fyrirtækið sem ekki starfandi, samkvæmt upplýsingum frá Startup Reykjavík. Eftir að frétt Norðurskautsins birtist í morgun þá fengust þær upplýsingar frá fyrirtækinu að þar er einn starfsmaður í fullu starfi. Fréttinni hefur verið breytt til að endurspegla það.

Í ár er fjórða skiptið sem viðskiptahraðallinn Startup Reykjavík er starfræktur af Klak-Innovit og Arion Banka. Hraðallinn velur að vori 10 fyrirtæki eða viðskiptahugmyndir sem fá fjármagn, aðstöðu og aðstoð við að koma fyrirtækinu og vöru sinni af stað.

startupreykjavik-logo-portrait

Samkvæmt gögnum Norðurskautsins tók saman um fyrstu tvo árganga verkefnisins eru fjórtán fyrirtæki af tuttugu enn starfandi, þar af fjögur með litla starfsemi. Við skilgreinum fyrirtæki með litla starfsemi þannig að þau séu með færri en einn starfsmann á launum í fullri vinnu. Þannig eru félög með tvo starfsmenn í 50% starfi skráð sem starfandi. Sjö fyrirtæki hafa hætt störfum.

Norðurskautið tók saman afdrif þeirra fyrirtækja sem fóru í gegnum Startup Reykjavík árin 2012 og 2013. Ákveðið var að skoða ekki árganginn í fyrra (2014) þar sem of stuttur tími er liðinn frá því að þau fyrirtæki fóru í gegnum hraðalinn.

Helmingur fengið styrk frá Tækniþróunarsjóði

Helmingur fyrirtækjanna hefur fengið styrk frá Tækniþróunarsjóði (TÞS). Meðaltalsupphæð styrkjanna er $138,800 (jafnvirði um 17,3 milljóna). Fyrirtækin hafa ýmist fengið frumherja- eða verkefnisstyrki. Þau eru öll enn þá starfandi. Af þeim tíu eru þrjú með litla starfsemi (færra en eitt stöðugildi).

Það er erfitt að fá uppgefið frá félögum hversu mikla fjárfestingu þau hafa fengið og því verður að taka þessum upplýsingum með fyrirvara. Samkvæmt upplýsingum okkar hafa fyrirtækin tuttugu fengið $2,288,000 (um 286 milljónir króna) í fjárfestingu og styrki.

Af þeirri upphæð eru um 61% frá TÞS, eða $1,388,000 (tæpar 173 milljónir), 21% frá Arion banka, eða $487,000 (um 61 milljón) og 17,5%, eða $400,000 (50 milljónir) frá öðrum fjárfestum. Öll fjárfesting, önnur en frá Arion Banka, sem fékkst uppgefin var fjárfesting Einvala í félaginu Herberia. Norðurskautið veit að fjárfest var í Activity Stream, en fékk ekki uppgefið hver fjárfesti eða hver upphæðin var.

Smelltu til að sjá myndina stærri.
Smelltu til að sjá myndina stærri.

30 stöðugildi í tíu starfandi fyrirtækjum

Fyrirtækin sem enn eru starfandi eru alls með 30 stöðugildi, eða þrjú að meðaltali í hverju fyrirtæki. Þessar tölur segja einungis til um stöðugildi í dag og segja þar af leiðandi ekki alla söguna um störfin sem Startup Reykjavík fyrirtæki hafa skapað. Líklegt er að um fleiri stöðugildi sé að ræða ef einnig er talið starfsfólk þeirra fyrirtækja sem nú hafa hætt störfum eða eru í dvala.

Misræmi upplýsinga Norðurskautsins og uppgefinna upplýsinga á vefsíðu Startup Reykjavík

Athygli vekur að þónokkuð misræmi er milli upplýsinganna sem Norðurskautið hefur aflað og þeirra sem gefnar eru upp á vefsíðu Startup Reykjavík. Þar kemur fram að öll fyrirtækin nema eitt séu enn starfandi, og tölur um stöðugildi eru töluvert hærri en upplýsingar Norðurskautsins. En það útskýrist af því að upplýsingar Startup Reykjavík eru óuppfærðar.

„Við erum nýlega búin að kalla eftir uppfærðum upplýsingum frá fyrirtækjum sem hafa tekið þátt í Startup Reykjavík,“ segir Ragnar Örn Kormáksson, verkefnisstjóri hjá Startup Reykjavík. „Við erum því að vinna í að uppfæra upplýsingarnar á síðunni – þær ættu að koma inn á næstunni.“

Svipað hlutfall og í Techstars hraðlinum

Til samanburðar við þessar tölur þá fóru sjötíu fyrirtæki í gegnum Techstars, einn stærsta viðskiptahraðal í heimi, fyrstu fjögur starfsár Techstars (2007–2010). Árið 2014 höfðu 23 þeirra (33%) hætt starfsemi, 26 (37%) voru enn þá starfandi og 21 þeirra (30%) höfðu verið keypt. Það vekur einnig athygli hve stórt hlutfall þessara fyrirtækja hafa verið seld, ólíkt tölunum fyrir Ísland, og má áætla að fjármagnshöft og smæð íslenska markaðarins hafi einhver áhrif þar.

Hlutfall þeirra fyrirtækja sem hafa hætt starfsemi hjá Techstars er mjög svipað og hjá Startup Reykjavík þar sem 35% hafa lagt niður störf. Umfjöllunin um Techstars fyrirtækin byggir á stærra gagnasafni en umfjöllun Norðurskautsins og lengri tími er liðinn frá því að fyrirtækin fóru í gegnum hraðalinn. En þessar tölur sýna samt sem áður að hlutfall þeirra fyrirtækja sem hafa farið í gegnum Startup Reykjavík og hætt starfsemi er ekki óvenjulegt.

Wall Street Journal (WSJ) tók þessar upplýsingar saman í greininni Techstars Graduates’ Survival Rates: What the Numbers Show en Norðurskautinu fannst áhugavert að þar var einnig erfitt að fá upplýsingar um upphæð fjárfestinga í fyrirtækjum. David Brown, einn stofnenda Techstars, sagði í viðtali við WSJ að fjárfestingar og upphæðir flestra kaupsamninga væru trúnaðarmál.

Uppfært kl. 10.55: Startup Reykjavík uppfærði í morgun yfirlit sitt og er munurinn á upplýsingum sem koma fram þar og upplýsingum Norðurskautsins nú mun minni.