Milljarðar króna í nýsköpun: Hvernig virka nýju sjóðirnir?

Í vor tilkynntu þrír rekstraraðilar um að hafa lokið fjármögnun á jafn mörgum sjóðum sem ætlaðir eru til fjárfestinga í nýsköpunar- og sprotafyrirtækjum. Samanlögð fjárhæð sem mun fara í fjárfestingar er 11,5 milljarðar króna og munu sjóðirnir fjárfesta í fyrirtækjum á mismunandi vaxtarstigum. Til að setja íslensku sjóðina í samhengi við fjárfestingarumhverfi í Kísildal, sem margir kannast eflaust við, gerði Norðurskautið úttekt á nýju sjóðunum.

Frumtak 2 Eyrir Sprotar Brunnur
Stærð sjóðs 5 milljarðar 2,5 milljarðar 4 milljarðar
Fjárfestingastig Venture (Series A og seinna, post revenue) Seed & Venture Seed & Venture
Stærð fjárfestinga 100-500 milljónir* <50-625** 100-500*
Sérhæfing Ekki tekið fram Ekki tekið fram hugbúnaður, internet, afþreyingariðnaður, hátækni, líftækni, orkuiðnaður, sjávarútvegstækni og matvælaframleiðsla***
Rekstrarþóknun Hlutfall af stærð sjóðs + árangurstengd þóknun Hlutfall af stærð sjóðs + árangurstengd þóknun Hlutfall af stærð sjóðs + árangurstengd þóknun

* skv. heimasíðu
** skv upplýsingum frá Eyri Sprotum eru fjárfestingar sem þau hafa farið í frá innan við 50 milljónum og sú stærsta er komin í 625. Þessar upphæðir eru því ekki útgefin stefna heldur byggt á fjárfestingum
*** sérstaklega er tekið fram að Brunnur muni ekki fjárfesta í ferðaiðnaði

Frumtak 2

Eggert Claessen. Mynd: Frumtak.is

Frumtak 2 er rekinn af félaginu Frumtak 2 GP ehf. en fjárfestingastjórar eru Eggert Claessen og Svana Gunnarsdóttir. Þau voru einnig fjárfestingastjórar Frumtaks, fjárfestingasjóðs sem lauk fjárfestingatímabili sínu þann 31. desember 2012. Sjóðurinn er 5 milljarðar að stærð og fjármagnaður af tíu lífeyrissjóðum, Landsbankanum og Frumtaki 2 GP ehf. Stakar fjárfestingar sjóðsins munu vera á bilinu 100-500 milljónir  og fjárfestingartíminn er 3-5 ár. Ölll upphæðin (fimm milljarðar) á að vera komin í sprotafyrirtæki á fimm árum. Það þýðir að lágmarki fjárfesting í 10 fyrirtækjum og að meðaltali 1 milljarður í fjárfestingu á ári. Gengið er út frá því að sjóðurinn selji fjárfestingar sínar 3-5 árum eftir fjárfestingu. Sjóðurinn sérhæfir sig ekki í neinni ákveðinni tegund fyrirtækja.

Í samtali við Norðurskautið segir Eggert að upplýsingar um þóknun til rekstraraðila séu trúnaðarmál en segir þó að almennt taki sjóðurinn mið af því hvernig þóknunum sé háttað erlendis. Það gefur til kynna að sjóðurinn sé rekinn eftir svokölluðu „Two and Twenty“ kerfi, eða útgáfu af því. Þar fá rekstraraðilar tvö prósent af heildarstærð sjóðs í þóknun á ári (þ.e. „Two“) og tuttugu prósent (þ.e. „Twenty“) í árangursþóknun, oft kallað „carry“. Árangurstengda þóknunin er þó oft háð kröfum um lágmarksárangur, þ.e. rekstraraðilinn fær 20% hluta af ágóða umfram lágmarkskröfu um ávöxtun.

Eggert segir að sjóðurinn muni fjárfesta í fyrirtækjum sem séu komin af klakstigi og búi yfir miklum vaxtarmöguleikum. Fjárfestingastefna sjóðsins er því svipuð og fyrri sjóðs, Frumtaks. Samkvæmt Eggerti þarf að vera komin “vara (þjónusta), velta og viðskiptavinir” til að sjóðurinn fjárfesti. Sjóðurinn er því post-seed sjóður, og mætti líkja honum helst við VC fyrirtæki sem fjárfesta í fyrstu stóru umferðinni – þ.e. Series A. Fjárhæðirnar eru örlítið lægri en Series A í Kísildal, en árið 2014 var miðgildi Series A umferða þar um 6 milljónir dala og í Evrópu var meðaltalið svipað, sem gera um 800 milljónir ISK. Eggert segir að á Íslandi vanti fjárfesta í sprotafjárfestingar (þ.e. „seed“) í fyrirtækjum sem hafa engar eða litlar tekjur.

Sjóðir sem fjárfesta af þessari stærðargráðu taka mjög oft sæti í stjórn félagsins sem fjárfest er í, og Eggert segir að í fyrri fjárfestingum (þ.e. fjárfestingum Frumtaks) hafi hann eða Svana tekið sæti í stjórn. Það muni að öllum líkindum haldast óbreytt.

Samkvæmt Eggerti eru þau í mjög reglulegum samskiptum og viðræðum við nýsköpunarfyrirtæki og gera ráð fyrir að klára fjórar fjárfestingar fyrir lok árs þar sem heildarupphæð fjárfestinga verður um 1 milljarður.

Eyrir Sprotar

Örn Valdimarsson. Mynd: EyrirSprotar.is

Eyrir Sprotar er sjóður í rekstri Eyris Invest og er 2,5 milljarðar að stærð. Sjóðurinn lauk fyrstu fjármögnun í vor og stefnir á að loka seinni umferð bráðlega. Hluthafar í Eyri Sprotum eru Eyrir Invest, Arion Banki, lífeyrissjóðir og fagfjárfestar. Sjóðurinn leggur áherslu á að vera aðalfjárfestir í þeim félögum sem sjóðurinn fjárfestir í, og í samtali við Norðurskautið segir Örn Valdimarsson, framkvæmdastjóri, að sjóðurinn fjárfesti ekki fyrir ákveðnar upphæðir, heldur komi frekar snemma inn, fylgi fyrirtækjunum og taki jafnvel þátt í seinni umferðum. Eyrir Sprotar segjast vera opin fyrir öllum sprotafyrirtækjum, en hafa þó aðallega fjárfest í orku, líf- og heilbrigðistækni eða menntatækni. Örn segir að þóknun Eyris Sprota sé í öllum meginatriðum hin sama og algengt sé, þ.e. föst umsýsluþóknun og árangurstengd þóknum þar ofaná.

Eins og fyrr segir leggja Eyrir Sprotar áherslu á að gegna hlutverki aðalfjárfestis (lead investor) í þeim umferðum sem sjóðurinn tekur þátt í, en aðalfjárfestir er sá sem vinnur mesta vinnu við fjárfestinguna og / eða leggur fram stærstan hluta þess fjármagns sem fer í fyrirtækið. Oft eru það þekktari eða stærri sjóðirnir í fjármögnunarumferðum sem taka það hlutverk. Sem dæmi má nefna að aðalfjárfestir í stærstu umferð QuizUp til þessa var Sequoia Capital.

Eyrir Sprotar fjárfesta ekki fyrir ákveðnar upphæðir, en upphæðirnar til þessa hafa verið frá innan við 50 milljónum króna upp í 625 milljónir. Samkvæmt Erni fjárfesta Eyrir í áföngum, þ.e. byrja hugsanlega með lægri upphæðir en fylgja fyrirtækjunum svo eftir. Upphæðirnar sem hefur þegar verið fjárfest fyrir gefa til kynna að fjórðungi fjármagns sjóðsins hafi þegar verið ráðstafað í eitt fyrirtæki af þeim sjö sem Eyrir hefur fjárfest í. Því má ætla að ekki sé mikið mikið svigrúm til fjárfestinga eftir, en það mun vonandi batna þegar félagið lokar seinni fjármögnunarumferð sjóðsins. Þessar upphæðir setja sjóðinn í flokk með bæði sprotafjárfestum (þ.e. „seed“) sem og fjárfestum sem fjárfesta seinna í ferlinu (Venture Capital).

Örn segir að stefna Eyris Sprota sé að vera virkur fjárfestir. Fulltrúi frá félaginu tekur sæti í stjórn félagsins, og iðulega er gerð krafa um stjórnarformennsku. Þessi fulltrúi getur verið úr röðum starfsmanna Eyris, úr fjárfestingaráði þess eða utanaðkomandi aðilar, allt eftir því hvaða þörf er til staðar hjá fyrirtækinu sem fjárfest er í. Eyrir vilja taka virkan þátt í mótun stefnu fyrirtækja og aðstoða stjórnendum við að koma þeirri stefnu í framkvæmd þegar eftir þörfum. Örn segir að það sem fyrst og fremst vanti í sprotaumhverfið á Íslandi sé þekking og reynsla í sölu á alþjóðlegum mörkuðum.

Brunnur Vaxtarsjóður

Sigurður Arnljótsson. Mynd: Linkedin.com

Brunnur Vaxtarsjóður er fjögurra milljarða króna fjárestingasjóður sem er rekinn af SA Framtak GP ehf. og Landsbréfum hf. Hluthafar í sjóðnum eru lífeyrissjóðir, Landsbréf, SA Framtak og nokkrir fjársterkir einstaklingar. Fjárfestingastjórar sjóðsins eru Sigurður Arnljótsson og Árni Blöndal frá SA Framtak og Helgi Júlíusson frá Landsbréfum. Líkt og hinir sjóðirnir er sjóðurinn rekinn á umsýsluþóknunum og árangurstengdum hvata.

Í samtali við Norðurskautið segir Sigurður Arnljótsson að sjóðurinn skilgreini sig sem venture capital sjóð, en geti einnig fjárfest á seed-stigi. Samkvæmt upplýsingum á heimasíðu sjóðsins mun hann fjárfesta í 10-15 fyrirtækjum á 3-5 ára tímabili, þar sem meðalfjárfesting verður á bilinu 100-500 milljónir.

Sigurður segir að Brunnur taki að sér hlutverk leiðandi fjárfestis ef svo ber undir, en sjóðurinn geri ekki kröfu um það. Einnig gera þeir ráð fyrir því að taka sæti í stjórn, og segir Sigurður að alla jafna muni annar þeirra taka sæti ásamt utanaðkomandi aðila. “Við viljum manna stjórnir félaganna eins vel og hægt er. Svo getur þetta auðvitað breyst með tímanum,” segir Sigurður.

Samkvæmt Sigurði búast þeir við að fjárfesta í tveimur til þremur fyrirtækjum á árinu, og segir hann að þeir geti óhikað sagt að á Íslandi séu “um þessar mundir nokkrir tugir spennandi fjárfestingakosta á þessu sviði.”

Sigurður segir það helst skorta konur í teymin sem standa að baki fyrirtækjunum sem sækjast eftir fjárfestingu til þeirra. Teymin séu langflest einungis skipuð körlum. Einnig mæla þeir sterklega með að teymi sem koma að kynna fyrirtækin komi vel undirbúin, því fólk fái einungis eitt tækifæri að fyrstu kynnum. Þeir hvetja frumkvöðla til að vera í sambandi við þá ef áhugi er fyrir fjárfestingu, svo framarlega sem fyrirtækin uppfylli fjárfestingastefnu sjóðsins.